Ritrýnireglur Fons Juris útgáfu

Dags. 22. mars 2022

I. Um ritrýnireglurnar
Reglur þessar eru settar af framkvæmdastjóra Fons Juris útgáfu ehf. og fræðilegum ritstjóra félagsins til leiðbeiningar fyrir ritrýna og höfunda þess efnis sem birt er eða gefið út af félaginu, hvort sem um er að ræða hefðbundna bókaútgáfu, útgáfu fræðigreina eða rafræna útgáfu.

Ritrýnireglunum er ætlað að fullnægja að lágmarki þeim skilyrðum og reglum um ritrýni sem koma fram í matskerfi opinberra háskóla. Markmið ritrýninnar er að aðstoða höfunda við samningu fræðilegs rits á sviði lögfræði og tryggja að hið útgefna rit eða efni (svo sem fræðigrein) standist þær fræðilegu kröfur sem gerðar eru af hinu akademíska samfélagi á Íslandi. Þannig er gerð skýlaus krafa um að útgefin rit eða efni byggi á sjálfstæðum rannsóknum en gildi þeirra getur jafnframt falist í vissu miðlunarhlutverki, þ.e. að þau beini alþjóðlegri vísindaumræðu og kenningum inn í staðbundið fræðasamfélag.

Handrit skulu ritrýnd berist ósk þess efnis frá höfundi og eða höfundum ritsins. Skal fræðilegur ritstjóri Fons Juris velja tvo ritrýna til að ritrýna handritið. Ritrýni skal vera nafnlaus, fagleg, efnisleg og unnin af viðurkenndum sérfræðingum á viðkomandi sviði. Höfundur skal jafnframt njóta nafnleysis gagnvart ritrýnum. Skrif sem standast ritrýni skulu ávallt auðkennd því til staðfestingar.

Við samningu reglnanna var hliðsjón höfð af matskerfi opinberra háskóla, verklags- og ritrýnireglum Tímarits lögfræðinga sem og Bókaútgáfunnar Codex.

II. Um fræðilegan ritstjóra Fons Juris og starf ritrýna
Fræðilegur ritstjóri Fons Juris fer með fræðilega ritstjórn þess efnis sem Fons Juris gefur út og er útgáfunni til ráðgjafar um hvaða rit eða annað efni telst heppilegt og tækt til útgáfu á vegum félagsins. Fræðilegur ritstjóri er jafnframt tengiliður félagsins við ritrýna og við höfunda þegar kemur að spurningum og álitaefnum er varða fræðilegt innihald þess efnis sem gefið er út. Þá veitir fræðilegur ritstjóri ráðgjöf til höfunda um verklagsreglur við útgáfu á vegum Fons Juris.

Ritrýnir skal fara yfir fræðilegt innihald efnis og skoða frumleika og framlag þess til þekkingar á sviði lögfræði með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar eru um inntak og gæði akademískra rannsókna. Ritrýnir skal veita álit sitt á nákvæmni, gæðum fræðilegrar umfjöllunar og hvort umfjöllun höfundar standist viðurkenndar aðferðir á sviði lögfræðilegra rannsókna. Þá skal ritrýnir leggja mat sitt á það hvort efnið hafi vísindalegt gildi og skapi nýja þekkingu á sviði lögfræðinnar.

Ritrýnar skulu skila athugasemdum sínum til fræðilegs ritstjóra Fons Juris. Í athugasemdum ritrýna skal gera grein fyrir því sem betur mætti fara og geta ritrýnar lagt fram tillögur um úrbætur og eða lagfæringar t.d. hvort að þörf sé að gera betur grein fyrir athugun á fræðiskrifum eða úrlausnum dómstóla. Framsetning ritrýna skal vera þess eðlis að höfundur geti auðveldlega tekið mið af hugmyndum, gagnrýni eða tillögum þeirra. Ritrýnin skal vera sett fram með þeim hætti að draga fram meginniðurstöðu hennar í upphafi en gera síðan nákvæma grein fyrir athugasemdum eða áliti ritrýna þar á eftir. Ritrýnar eru hvattir til að koma með tillögur um úrbætur og breytingar hvort sem þær telji efnið hæft til birtingar eða ekki. Gæta skal þó að því að athugasemdir og álit ritrýna sé uppbyggilegt. Ritrýnir skal að lokinni ritrýni gera tillögu til fræðilegs ritstjóra Fons Juris um hver eftirtalinna leiða skuli farin:

    1. Gefa skuli efni út, ef til vill með minniháttar breytingum
    1. Ritrýnir mælir með að efni verði gefið út, en höfundur geri þá nauðsynlegar breytingar.
    1. Hafna beri útgáfu efnis.

Ef ritrýnar eru ósammála í mati sínu þá metur fræðilegur ritstjóri Fons Juris eða framkvæmdastjóri útgáfunnar hvaða afgreiðslu viðkomandi rit eða fræðigrein hlýtur. Ef svo stendur á að ritrýnar, annað hvort báðir eða annar hvor, mæla með leið 3 skuli farin taka þeir ákvörðun um hvort ritrýnar skuli lesa aftur yfir efnið í heild eða hluta eftir að höfundur hefur brugðist við athugasemdum þeirra eða að hafna beri útgáfu efnis ef svo stendur á.

Við notum vefkökur
Vefur Fons Juris notar vefkökur m.a. til þess að safna upplýsingum um umferð á vefnum, til að bæta upplifun og vegna auglýsingabirtinga.

Cookie Settings

We use cookies to improve user experience. Choose what cookie categories you allow us to use. You can read more about our Cookie Policy by clicking on Cookie Policy below.

These cookies enable strictly necessary cookies for security, language support and verification of identity. These cookies can’t be disabled.

These cookies collect data to remember choices users make to improve and give a better user experience. Disabling can cause some parts of the site to not work properly.

These cookies help us to understand how visitors interact with our website, help us measure and analyze traffic to improve our service.

These cookies help us to better deliver marketing content and customized ads.