Eignaréttur I

Almennur hluti

Eignaréttur I, er hið fyrsta í fyrirhugaðri þriggja binda ritröð höfunda um íslenskan eignarétt. Þetta fyrsta bindi tekur til umfjöllunar reglur sem eru sameiginlegar flestum eignarréttindum og varða grundvallarþætti í íslenskri eignarréttarskipan. Í ritinu er fjallað um ýmsar raunhæfar réttarreglur sem oft reynir á fyrir dómstólum, eins og til dæmis andlag eignarréttar, eignaraðild, eignarform, forkaupsrétt og önnur óbein eignarréttindi, réttarreglur um sérstaka sameign, stofnunarhætti eignarréttinda og nábýlisrétt.

Ritið er meðal annars samið með það í huga að vera kennslurit við lagadeildir íslenskra háskóla. Jafnframt er það von höfunda að ritið megi gagnast öðrum þeim sem sýsla með reglur eignaréttarins í daglegum störfum sínum eins og dómurum, lögmönnum og starfsmönnum stjórnsýslunnar, sveitarfélaga og einkafyrirtækja.

Ritið fæst í vefverslun okkar.

Um höfunda

Þorgeir Örlygsson

Þorgeir Örlygsson lauk embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands 1978 og LL.M. gráðu frá lagadeild Harvard háskóla 1980. Hann starfaði lengi sem prófessor í fjármunarétti við lagadeild Háskóla Íslands, þar sem kennslugreinar hans voru á sviði kröfu-, eigna- og veðréttar. Hann var ráðuneytisstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum 1999-2003 og dómari við EFTA-dómstólinn í Lúxemborg 2003-2011. Frá árinu 2011 hefur Þorgeir starfað sem dómari við Hæstarétt Íslands og var kjörinn forseti réttarins 2017-2021.

Karl Axelsson

Karl Axelsson lauk embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands 1990. Á árunum 1993-2015 starfaði Karl sem lögmaður og flutti fjölda mála fyrir dómstólunum hér á landi. Samhliða lögmennsku sat Karl í fjölda nefnda, meðal annars kærunefnd húsamála og óbyggðanefnd. Þá hefur Karl sinnt kennslu við lagadeild Háskóla Íslands frá 1992, en frá árinu 2007 hefur hann verið dósent við deildina. Karl var settur dómari við Hæstarétt Íslands í október 2014 til júní 2015 og hefur verið skipaður dómari við réttinn síðan í október 2015.

Víðir Smári Petersen

Víðir Smári Petersen lauk meistaragráðu í lögum frá Háskóla Íslands 2011 og LL.M. gráðu frá lagadeild Harvard háskóla 2015. Víðir er einn af eigendum LEX lögmannsstofu og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti árið 2017. Hann hefur sinnt kennslu við lagadeild Háskóla Íslands frá árinu 2011 og var ráðinn aðjúnkt við deildina árið 2017. Á árunum 2015-2016 starfaði Víðir sem aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands.

Ritið fæst í vefverslun okkar.

Nánari upplýsingar

Bókin Eignaréttur I er tæplega 500 blaðsíður, prentuð á hágæða bókapappír og gefin út í harðspjaldi af Fons Juris útgáfu ehf. Bókin er ætluð laganemum og þeim sem starfa á sviði lögfræði. Bókin gagnast einnig öllum þeim sem koma að verkefnum á sviði eignaréttar í störfum sínum.

Login

Reset Your Password